Við hjá Fjölskylduhjálp Íslands sjáum fram á erfið jól í ár. Fjármunir eru af skornum skammti, styrkir frá hinu opinbera duga skammt og ásóknin þessi jól eftir matvælaaðstoð er mun meiri en búist var við hjá okkur.
Hér er stór hópur fólks, fjölskyldur, einstæðir foreldrar, aldraðir, öryrkjar, innflytjendur, lágtekjufólk o.fl. sem ná ekki endum saman.
Höfum við lagt okkur fram við að útvega þessum hópi matvæli í hverjum mánuði, bæði fersk, auk þess sem fyrirtæki hafa, í ljósi vitunarvakningar á matarsóun, gefið okkur matvörur sem nálgast síðasta söludag og/eða geymast áfram fram yfir hann.
Jólin nálgast óðfluga og sjá margir í þessum hópum ekki fram á að geta haldið jól yfir höfuð eða með lítilli reisn.
Í fyrra aðstoðuðum við um 2000 manns fyrir jólin og er ekki búist við færri í ár miðað við fyrirspurnir til okkar sem hófust óvenju snemma í ár.
Fjármagn er hins vegar takmarkað, og því miður sjáum við fram á að þurfa að setja þak á hversu marga við getum aðstoðað í ár, nema samfélagið okkar taki höndum saman og leggi verkefninu lið.
Hrindum við því af stað bráða-jólasöfnun hér á vefnum. Hver króna skiptir máli og fer allt fjármagn óskert í matarsjóðinn fyrir jólin.
Comments are closed.