Fjölskylduhjálpin var stofnuð árið 2003 af fimm konum, Ásgerði Jónu Flosadóttur, Guðrúnu Magnúsdóttur, Önnu Auðunsdóttur, Rögnu Rósantsdóttur og Guðbjörgu Pétursdóttur, saman höfðu þær 80 ára reynslu sem sjálfboðaliðar í góðgerðarstörfum.
Í upphafi var starfsemin sett á laggirnar til að úthluta fatnaði til þeirra sem erfitt eiga í samfélaginu. Fljótlega fóru að berast matvæli frá fyrirtækjum í landinu til okkar. Jón Ásgerir Jóhannesson kaupsýslumaður gerði Fjölskylduhjálp Íslands mögulegt á að hefja starfsemina með því að greiða húsaleigu til Reykjavíkurborgar af Eskihlíð 2-4 þar sem starfsemin hófst og stóð hún þar óslitið til ársins 2013. Starfsemin flutti frá Eskihlíð 2–4 í Reykjavík að Iðufelli 14 í Reykjavík 5. júní 2013, og við þær breytingar urðu þáttaskil í starfsemi Fjölskylduhjálpar Íslands þar sem öll aðstaða varð mun betri fyrir þá sem leita til okkar og vinnuskilyrðin fyrir sjálfboðaliða allt önnur.
Fjölskylduhjálp Íslands starfar í þágu kvenna, karla og barna í neyð, óháð uppruna þeirra. Fjöldi fjölskyldna sem eru á skrá eru yfir 5000 talsins sem þurfa aðstoð í mismiklu mæli, en árið 2006 aðstoðaði Fjölskylduhjálpin yfir 15.000 manns. Starfsárið 2012 til 2013 úthutaði Fjölskylduhjálp Íslands yfir 30.000 mataraðstoðum. Þeir sem leita eftir aðstoð hjá Fjölskylduhjálp Íslands eru öryrkjar, atvinnulausir, einstæðar mæður og feður, eldri borgarar, lágtekjufólk og einstæðingar.
Starfið var fyrstu átta árin byggt upp á vinnuframlagi sjálfboðaliða og eru þeir fleiri sem vilja gerast sjálfboðaliðar en þörf er fyrir sem lýsir anda fólksins gagnvart starfseminni. Meðal sjálfboðaliða eru öryrkjar, eldri borgarar, fólk í atvinnuleit, skólafólk og einnig kemur fólk okkur til aðstoðar sem vel er statt í þjóðfélaginu og er það mjög gleðilegt. Aðalstarfsemin er að aðstoða fátækt fólk með matvæli, lyf, hársnyrtingu, fatnað, ungbarnavörur og leikföng. Þörfin fyrir aðstoð hefur aukist ár frá ári. Jólamánuðinn sker sig alltaf úr þegar þúsundir einstaklinga ár hvert njóta aðstoðar til að halda Gleðileg jól.
Fjölskylduhjálp Íslands kaupir vinnu gjaldkera, bókara og endurskoðanda sem starfa út í bæ og eru óháðir starfsemi Fjölskylduhjálpar Íslands. Þessi ákvörðun var tekin af stjórn Fjölskylduhjálpar Íslands, til að rjúfa öll tengsl stjórnar og starfseminnar við bókhald, fjármál og greiðslu reikninga. Starfsemin hefur margfaldast að umfangi á undanförnum árum og var svo komið að stjórn Fjölskylduhjálpar Íslands, tók þá ákvörðun að formaður yrði á launum í fullu starfi, til að hægt væri að sinna skjólstæðingum eins og þörf var á. Þessi þróun er sú sama og hjá öðrum hjálparsamtökum á Íslandi.
Árið 2010 opnaði Fjölskylduhjálp Íslands útibú fyrir mataraðstoð að Hafnargötu 29 í Reykjanesbæ og opnaði síðan nytjamarkað að Hafnargötu 32. Mataraðstoð Fjölskylduhjálpar Íslands flutti eftir eitt ár frá Hafnargötu 29 vegna aukinnar eftirspurnar í Grófina 10c og var starfsemin þar til húsa fram til 15. nóvember 2013, þegar öll starfsemi í Grófinni 10c og Hafnargötu 32 var sameinuð í framtíðarhúsnæði að Baldursgötu 14, Reykjanesbæ. Verkefnisstjóri starfseminnar í Reykjanesbæ er Anna Valdís Jónsdóttir og með henni starfar fjöldi sjálfboðaliða.
Til að starfsemi eins og Fjölskylduhjálp Íslands geti starfað, eins og hún gerir, þarf hún stuðning frá fyrirtækjum, fólkinu í landinu og opinberum aðilum og bera þessir aðilar uppi fjárhagslegan bakrunn starfseminnar.
Sett var á stofn kertaframleiðsla Fjölskylduhjálpar Íslands í október 2013, þar sem sjálfboðaliðar framleiða tólgar-útikerti til fjáröflunar og hafa verslanir á Íslandi veitt okkur ómetanlegan stuðning við sölu á framleiðslunni.
Einnig eru starfræktir tveir nytjamarkaðir með fatnað sem opnir eru almenningi, annar að Iðufelli 14 í Reykjavík og hinn að Baldursgötu 14 í Reykjanesbæ.
Fjölskylduhjálp Íslands vill færa öllum velunnurum starfseminnar innilegar þakkir fyrir allan þann stuðning og hlýhug sem þið hafið sýnt þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu.